Þetta hefur líka gerst á Íslandi...

Ég man ekki betur en að blindur maður hafi haft yfirumsjón með
byggingarframkvæmdum hérlendis ekki alls fyrir löngu... munurinn er
kannski sá að þetta var ekki brú heldur Þjóðleikhúsið .. og maðurinn
var "eingöngu" SIÐ-blindur.  Ætli sá kínverski, Ching, Xang
Johnsen, þekki þá ekki einhverja háttsetta embættismenn sem geta
strikað yfir afglöp hanns svo hann geti byrjað fyrri iðju hið fyrsta...

mbl.is Dæmdir til fangelsisvistar fyrir að ráða blindan mann til að byggja brú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsvinir

Já, mörgu má nú nafn gefa.  Ég er, eins og eflaust flestir Íslendingar, kominn með upp í kok af Íslandsvinatali.  Eflaust var þetta mjög sniðugt hérna árið 1987 á Bylgjunni, þegar þetta kom fyrst fram.  En það sem er sniðugt einu sinni, er EKKI sniðugt því oftar sem það er notað.  Það eru ekki heldur margir eftir, af þessum ríku og frægu útlendingum, sem ekki hafa millilent á Íslandi og þar með uppskorið nafnbótina "Íslandsvinur".  Þó minnist ég ekki að hafa heyrt nokkurn í þessum merka hópi, hafa nýtt sér nafnbótina.  Hef aldrei séð viðtal við Tom Cruise þar sem hann kynnir sig

"Hi, I'm Tom Cruise, Hollywood Star, one of the top figures og the Scientologist church and Iceland-friend"

En hver veit... kannski gerir hann þetta einn daginn.
 

En það var eiginlega ekki það sem ég ætlaði að ræða.  Ég vil í raun setja á reglur varðandi nafnbótina Íslandsvinur.  Það finnst engum flott að vera Íslandsvinur, ef allir geta orðið það.  Það er svipað og að fá Fálkaorðuna.  Það eiga hana næstum allir Íslendingar og því ekki lengur eftirsóknarverð.  Nei, Íslandsvinur á að vera sjaldgæft og þar af leiðandi eftirsóknarvert.

Íslandsvinur á að vera svívirðilega ríkur og / eða frægur útlendingur sem kemur til Íslands af fúsum og frjálsum vilja.  Sem hefur áhuga á Íslandi og Íslendingum.  Ekki einhver sem fær borgað fyrir að koma hingað í nokkra tíma og syngja í afmæli forstjóra stórfyrirtækja.  Fólki sem er borgað fyrir að koma hingað til lands, eiga EKKI skilið nafnbótina Íslandsvinur.

Karl Bretaprins er gott dæmi um Íslandsvin.  Hann kom margsinnis til Ísland til að veiða lax. Kom því hann vildi koma og þurfti ekki að fá borgað fyrir það.

Damon Albarn er annað gott dæmi, þó svo að honum hafi fyrst verið borgað fyrir að koma.  Honum leist vel á og var því lengi með annan fótinn hérlendis. 

Fyrir þá sem vilja halda í hinar eldri hefðir, þar sem ALLIR geta orðið Íslandsvinir, þá er synd af kynlífsráðstefnunni væri aflýst.  Þar hefðu getað orðið til hinir forvitnilegustu Íslandsvinir sem sögum fer af og því góð afsökun til að fylgjast með ferli þeirra.

Svo er bara spurning hvort ekki séu einhverjir sammála (eða ósammála) mér um þessi mál.

 


Gleðileg Tár

Já, þá er maður kominn inn í 2007.  Og þar sem ég kemst enn fram úr rúminu, get kastað þvagi án verulegra vandræða og hef alla fingur á hvorri hönd, þá get ég ekki kvartað.

Nú eru orðin nokkur ár síðan maður upplifði áramót hér heima og verð ég að segja að mér finnst ekki mikið hafa breyst í hugsunargangi landans á þessari kvöldstund.

Í ár sátum við kærastan, með systir hennar og stjúppabba og borðuðum kl. 21.  Síðan var horft á áramótaskaupið sem fór að mestu leyti framhjá hláturstauginni hjá mér... meira að segja líka eftir að yfirmaður minn, Páll Magnússon, tilkynnti mér að ég hlyti þá að vera verulega heimskur.  Hvort hann hafi rétt fyrir sér í þeim málum... tja...

Eftir skaupið keyrðum við upp í Úlvarsfell og horfðum á milljarðasýninguna á höfuðborgarsvæðinu sem rétt náði að hanga í um klukkutíma.  Kærastan, sem er alin upp af frændþjóð okkar, Færeyingum, var enn í sjokki þegar við keyrðum hring í gegnum bæinn uppúr kl. 01.  Ekki bara vegna þess hversu "dugleg" við erum að skjóta upp sparifénu á gamlárs... heldur vegna alls raketturuslsins sem lá fyrir framan öll hús.  Margir höfðu bersýnilega ekki sprengt nóg, því þeir fundu hjá sér óstýranlega þörf fyrir því að stafla öllum tómu tertu-kössunum upp á gangstéttina og kveikja í þeim.

Þegar við keyrðum í átt að miðbænum, sagði ég kærustunni að læsa hurðinni sín megin.  Íslendingar hafa innbyrgt mörg gleðileg tárin um kvöldið og því mætti við öllu búast.  Að miðbærinn væri pakkaður af fólki með rakettur og aðra vitleysu.  En þegar við komum í bæinn var hann eiginlega bara tómur.  Og á þeim stöðum þar sem fólk var, virtist bara vera mjög góð og skemmtileg stemning. Kannski er ég búinn að vera allt of lengi í útlöndum þar sem stórhættulegt er að vera að þvælast úti um helgar.  Kannski er ég bara heimskur eins og Páll Magnússon benti svo skemmtilega á í fyrrakvöld.

Já, en hvað um það.  Ég er á lífi og hef ekki gert nein nýársheit í þetta sinn.  Maður er þá ekkert að falla fyrir neinum freistingum.  Ætla að borða það sem mig langar í og hef efni á (matvöruverð hér er efni í heila bók svo ég nenni ekki að fara út í þá sálma hér), reykja úti í mínu horni og drekka ef ég nenni.  Og ég ætla að halda áfram að pissa standandi, komast fram úr rúminu og halda fingrunum.

Gleðilegt ár

 


Ford náðar Nixon... hmmmmm

Það er ekki laust við að maður sjái einhverja samlíkingu með því og
öðru máli ?  Skyldi Ford og Nixon hafa verið sjálfstæðismenn ???
mbl.is Ford viðurkenndi að hafa náðað Nixon vegna vináttusambands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyllerí og aðrir góðir kostir

fyllerí

Það er ótrúlegt hvað nágrannar þurfa alltaf að vera að skipta sér af.  Maður má ekki einu sinni skjóta flugeldum af svölum í blokk kl. 4 að morgni í miðri viku, án þess að nágrannarnir byrji að trufla með alls konar banki og bulli.  Og þegar maður hækkar í græjunum til að yfirgnæfa bankið í veggjum og gólfplötunni, þá mætir lögreglan, öfundsjúk á staðinn og heimtar að fá að taka flugeldana ??? Hvers konar afskiptasemi er þetta eiginlega ?

 Nei, því verður ekki logið um Íslendinga, að þeir vita manna best hvenær og hvernig maður skemmtir sér.  Og þá láta þeir ekkert stoppa sig.  Og þegar löggugreyin reyna að stöðva leikinn, verða þeir bara barðir. 

Það er oft talað um að Íslendingar drekki ekkert meira en nágrannaþjóðirnar en því virðist alltaf gleymt að Íslendingar torga vikumagni annara þjóða, á föstudags- og laugardagskvöldi (og að sjálfsögðu á frídögum eins og um jól).  Þar af leiðandi getur það gerst að þeir verði aðeins hífaðir og jafnframt frekar leiðinlegir.

Sem dæmi um samviskufulla erlenda fyllibyttu má lesa greinina í Morgunblaðinu þar sem maðurinn settist undir stýri eftir að hafa fengið sér aðeins neðan í því og keyrði beint á lögreglustöðina og kærði sjálfan sig fyrir ölvunarakstur.  Hann var að vísu Færeyingur

Já, þetta er Ísland í dag 


mbl.is Ók fullur að lögreglustöðinni og afhenti bíllyklana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klónaða Skjóna

KlónaSkjóna

Það mátti lesa í morgunblaðinu að bandaríska matvæla og heilbrigðiseftirlitið hefði gefið út yfirlýsingu þess eðlis að kjöt og mjólkurvörur af klónuðum dýrum standist öðrum afurðum fullkomlega.  Það vakna að sjálfsögðu upp margar spurningar eftir að hafa lesið þessa grein.  

Dæmi:

Íslenskur kotbúi á eina kú og eina rollu og lætur klóna þær og þegar klónuðu dýrin ná þeim aldri að gefa af sér afurðir, þá brytjar hann þær fyrri niður handa fjölskyldunni.  Síðan klónar hann klónuðu dýrin og þegar þau ná þeim aldri að þau gefi af sér afurðir, þá fara fyrri klónin sömu leið á diskinn, og svo koll af kolli.  

 Er hægt að klóna dýr af klónuðum dýrum og ef svo, er það þá hægt út í það endalausa ?  Eða eru dýrin eins og gömlu VHS spólurnar ?  Þegar gerð hefur verið "kópía" af "kópíunni" þá hafa gæðin versnað um þriðjung.

 Og ef maður hefur heila hjörð sem öll eru klónuð af sama dýrinu, fær maður þá bara landbúnaðarstyrk fyrir fyrirrennarann, þar sem þetta eru jú í raun, eitt og sama dýrið ?

Tala nú ekki um þegar byrjað verður að klóna fólk.  Gæti ég þá látið klóna mig og arfleitt sjálfan mig af öllum mínum auðæfum án þess að borga ríkinu erfðaskatt þar sem ég og ég erum sama persónan ?  

Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum 

 

 


mbl.is Afurðir einræktaðra dýra sagðar jafn hollar og afurðir annarra dýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta bloggfærsla

Jæja, þá er komið að því að gerast íbúi í hinum stóra bloggheimi. Þar sem maður las um það í blöðunum nýlega að bloggið sé í hámarki um þessar mundir og muni hægt og rólega deyja út, þá er ekki seinna vænna en að verða með.  Hvað það verður, veit nú enginn... ekki einu sinni ég.  Það kemur bara í ljós þegar á líður.

Annars er ekki hægt að kvarta yfir veðrinu, tja.... ekki nema þá rokinu sem alltaf virðist herja á þetta norðursker.  Eeeeen... það er ekki hægt að fá allt svo ég sætti mig við rokið ef snjórinn og frostið lætur sig vanta.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband