Gleðileg Tár

Já, þá er maður kominn inn í 2007.  Og þar sem ég kemst enn fram úr rúminu, get kastað þvagi án verulegra vandræða og hef alla fingur á hvorri hönd, þá get ég ekki kvartað.

Nú eru orðin nokkur ár síðan maður upplifði áramót hér heima og verð ég að segja að mér finnst ekki mikið hafa breyst í hugsunargangi landans á þessari kvöldstund.

Í ár sátum við kærastan, með systir hennar og stjúppabba og borðuðum kl. 21.  Síðan var horft á áramótaskaupið sem fór að mestu leyti framhjá hláturstauginni hjá mér... meira að segja líka eftir að yfirmaður minn, Páll Magnússon, tilkynnti mér að ég hlyti þá að vera verulega heimskur.  Hvort hann hafi rétt fyrir sér í þeim málum... tja...

Eftir skaupið keyrðum við upp í Úlvarsfell og horfðum á milljarðasýninguna á höfuðborgarsvæðinu sem rétt náði að hanga í um klukkutíma.  Kærastan, sem er alin upp af frændþjóð okkar, Færeyingum, var enn í sjokki þegar við keyrðum hring í gegnum bæinn uppúr kl. 01.  Ekki bara vegna þess hversu "dugleg" við erum að skjóta upp sparifénu á gamlárs... heldur vegna alls raketturuslsins sem lá fyrir framan öll hús.  Margir höfðu bersýnilega ekki sprengt nóg, því þeir fundu hjá sér óstýranlega þörf fyrir því að stafla öllum tómu tertu-kössunum upp á gangstéttina og kveikja í þeim.

Þegar við keyrðum í átt að miðbænum, sagði ég kærustunni að læsa hurðinni sín megin.  Íslendingar hafa innbyrgt mörg gleðileg tárin um kvöldið og því mætti við öllu búast.  Að miðbærinn væri pakkaður af fólki með rakettur og aðra vitleysu.  En þegar við komum í bæinn var hann eiginlega bara tómur.  Og á þeim stöðum þar sem fólk var, virtist bara vera mjög góð og skemmtileg stemning. Kannski er ég búinn að vera allt of lengi í útlöndum þar sem stórhættulegt er að vera að þvælast úti um helgar.  Kannski er ég bara heimskur eins og Páll Magnússon benti svo skemmtilega á í fyrrakvöld.

Já, en hvað um það.  Ég er á lífi og hef ekki gert nein nýársheit í þetta sinn.  Maður er þá ekkert að falla fyrir neinum freistingum.  Ætla að borða það sem mig langar í og hef efni á (matvöruverð hér er efni í heila bók svo ég nenni ekki að fara út í þá sálma hér), reykja úti í mínu horni og drekka ef ég nenni.  Og ég ætla að halda áfram að pissa standandi, komast fram úr rúminu og halda fingrunum.

Gleðilegt ár

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband